Barna- og Unglingaráð Víkings og Skeljungur hafa stofnað til styrktarsamstarfs sem felur í sér að stuðningsmenn Víkings munu geta sótt um sérstakan Orkulykil Víkings. Lykillinn veitir m.a. afslátt af eldsneyti á Orkunni og Shell ásamt því að veita afslátt hjá yfir tuttugu samstarfsaðilum Skeljungs.
Að auki rennur 1 kr. af hverjum eldsneytislítra sem keyptur er með lyklinum til styrktar Barna- og Unglingaráðs handboltadeildar Víkings, ásamt árangurstengdum greiðslum. Orkulykillinn verður einnig merktur félaginu með glæsilegum límmiða svo það fari örugglega ekki á milli mála að um Víkings lykil sé að ræða.
Til að innsigla samstarfið kíktu fulltrúar Skeljungs á æfingu hjá yngri flokkum Víkings og til að fagna samstarfinu var öllum krökkunum boðið að stilla sér upp og leyfa nýja styrktaraðilanum að finna fyrir skotkraftinum í framtíðar handboltastjörnum Íslands.