Orkan styrkir stuðið á Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana
Orkan styrkir stuðið á Aldrei fór ég suður á Ísafirði með því að senda færanlega hleðslustöð vestur yfir páskahátíðina.
Orkan styrkir stuðið á Aldrei fór ég suður á Ísafirði með því að senda færanlega hleðslustöð vestur yfir páskahátíðina.
Hraðhleðslutengjum fyrir rafbíla á Ísafirði fjölgar verulega í vikunni þar sem við höfum sett upp færanlega hleðslustöð í bænum og bætt þjónustu við rafbílaeigendur yfir páskahátíðina. Hleðsluinnviðir fyrir rafbíla á svæðinu hafa því verið styrktir á meðan þúsundir manna sækja bæinn heim um páskana til þess að upplifa hina margfrægu tónlistarhátíð Aldrei fór ég suður.
Um er að ræða 350kW hleðslustöð sem er sett upp af Orkunni í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Hún er með fjögur stæði, þrjú CCS tengi og eitt CHAdeMO tengi. Stöðin mun standa við Sundabakka á höfninni þar sem hátiðin fer fram og verður þar fram yfir páska.
Færanlegar hleðslustöðvar voru fyrst teknar í notkun af Orkunni í nóvember 2023 en um er að ræða rafhlöðubanka sem geymir 350 kWh af orku. Með rafhlöðubanka myndast minna álag á raforkukerfið og er því hægt er að tengja lausnina við minni rafmagnstengingu en hefðbundin hleðslustöð en samt sem áður halda fullu afli. Þannig verður orkunýting mun betri. Þar sem hún er færanleg veitir það einnig tækifæri til að nýta stöðina í verkefni líkt og þessi, að styrkja hleðslu innviði þegar álagstími stendur yfir.
„Við höfum fylgst grannt með akstursumferð hingað vestur síðustu 20 ár og vitum að við eigum von á þúsundum gesta akandi vestur um páskana. Miklu máli skiptir að styrkja þá innviði sem við getum. Orkan var til í að leggja hönd á plóg og setja upp þessar frábæru færanlegu hleðslustöðvar svo fleiri geti hlaðið bílana sína á Ísafirði og haldið uppi stuðinu á Aldrei fór ég suður. Þetta breytir miklu fyrir okkur og frábært að sjá fyrirtæki taka þátt í að gera upplifun gesta sem besta,” segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.
„Það er okkur ljúft og skylt að taka þátt í að halda uppi stuðinu á Ísafirði um páskana. Við vitum hvað hleðsluinnviðir skipta landsbyggðina máli, sérstaklega þegar mikið er um að vera og fjöldi fólks á svæðinu margfaldast. Orkan tekur virkan þátt i orkuskiptunum og eru þessar færanlegu hraðhleðslustöðvar mikilvægur hluti af þeirri vegferð. Við hlökkum til að fara með stöðina vestur um páskana og jafnvel á fleiri staði úti á landi á næstu mánuðum” segir Auður Daníelsdóttir forstjóri Orkunnar.
Til gamans má sjá skemmtilegt vídeó af stuðinu hér.