15.06.2021

Skeljungur kaupir Gló og Berglind Jónsdóttir nýr framkvæmdastjóri

Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Gló veitinga ehf. Berglind hefur undanfarið...

Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Gló veitinga ehf. Berglind hefur undanfarið ár starfað við rekstrar- og markaðsmál hjá Metro og þar áður hjá Dagný og Co. samhliða námi.  Hún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Gló veitingar hafa leikið lykilhlutverki í að auðvelda fólki að næra sig og hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks. „Ég sé mörg tækifæri fyrir þetta flotta vörumerki og hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni“, segir Berglind.

Skeljungur keypti nýlega allt hlutafé í Gló veitingum ehf. og tók við rekstri félagsins. Gló vörur, svo sem skálar, vefjur, safar og grautar eru nú til sölu á þremur þjónustustöðvum Orkunnar; við Vesturlandsveg, í Suðurfelli og Hagasmára. Berglind segir þetta fyrsta skrefið í þróun Gló vörumerkisins og það sé frábært að geta boðið upp á næringarríkan og hollan mat fyrir fólk á ferðinni. Vörurnar verða á 50% afslætti allan júní.

Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Skeljungs: „Orkan hyggst leggja aukna áherslu á hollari valkosti á stöðvum sínum og bjóða viðskiptavinum sínum upp á lausnir sem einfalda líf þeirra. Staðsetningar Orkunnar eru góðar við helstu stofnæðar og mun auðvelt aðgengi að þeim stytta þann tíma sem fólk þarf að eyða í að grípa sér eitthvað hollt og gott á ferðinni.“