07.11.2022

1,5 milljón til Bleiku slaufunnar

Viðskiptavinir Orkunnar söfnuðu 1,5 milljónum króna til Bleiku slaufunnar, átaks Krabbameinsfélagins.

Viðskiptavinir Orkunnar söfnuðu 1,5 milljónum króna til Bleiku slaufunnar, átaks Krabbameinsfélagins. Söfnunin fór þannig fram að á Bleika deginum, 14. október, runnu 5 krónur af hverjum seldum lítra til átaksins. Til viðbótar safna Orkulyklar viðskiptavina sem eru skráðir í hóp Bleiku slaufunnar 1 krónu á hvern seldan lítra allt árið en 2 krónur í október. 
Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Í ár var slagorð átaksins “Sýnum lit” með áherslu á að það er margt sem hver og einn getur gert til að draga úr líkum á krabbameinum.  

„Krabbameinsfélagið er mikilvæg samfélagsstoð.  Félagið er ekki eingöngu þeim sem veikjast ómetanlegur stuðningur, heldur einnig aðstandendum þeirra. Orkan er stoltur styrktaraðili Bleiku slaufunnar í 16 ár.  Í október lögðum við auka lóð á vogarskálarnar með því að styrkja málefnið sérstaklega á Bleika deginum. Við bjóðum einnig viðskiptavinum að styrkja málefnið aðra mánuði ársins með Orkulyklinum. Eins og Bleika slaufan, þá elskum við hjá Orkunni að vera bleik. Bleik í október – bleik allan ársins hring.” segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar. 

„Allt starf Krabbameinsfélagsins er rekið fyrir stuðning almennings og fyrirtækja í landinu. Við erum því óendanlega  þakklát öllum þeim sem leggja sitt af mörkum til félagsins. Þannig getum við haldið áfram af krafti að vinna að markmiðum félagsins sem eru að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Það eru traustir stuðningsaðilar á borð við Orkuna sem gera okkur þetta kleift – takk fyrir frábært samstarf í gegnum tíðina og vonandi um ókomin ár!“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 

Orkan gerir viðskiptavinum kleift að styðja Krabbameinsfélagið allan ársins hring með bleika Orkulyklinum og er hægt að sækja um hann hér

 

Á myndinni eru frá Krabbameinsfélaginu þau Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, sem tóku við styrknum frá þeim Auði Daníelsdóttur, forstjóra Orkunnar og Brynju Guðjónsdóttur, markaðsstjóra Orkunnar.