19.04.2023

Orkan í Suðurfelli römpuð upp og býður nú lægsta verðið í Reykjavík

Orkustöðin í Suðurfelli var römpuð upp í janúar og býður nú viðskiptavinum lægsta dælu verðið í Reykjavík.

Orkustöðin í Suðurfelli var römpuð upp í janúar og býður nú viðskiptavinum lægsta dælu verðið í Reykjavík. Orkustöðin í Suðurfelli er fyrsta aðgengilega bensínstöðin fyrir hreyfihamlaða en þrjár dælur voru rampaðar upp með þeim hætti að stéttin var hækkuð í kringum dælurnar og greiðsluvélar gerðar aðgengilegri.

„Við erum gríðarlega stolt af þessu samstarfi með Römpum upp og Sjálfsbjörgu. Verkefnið snerti okkur og hvatti okkur áfram til að vinna að breytingum með það að markmiði að einfalda líf hreyfihamlaðra og það er einstaklega jákvætt að taka það nú enn lengra með þessu hætti. Það er mikilvægt fyrir okkur að taka þetta skref fyrir viðskiptavini Orkunnar og geta boðið lægsta verðið í Reykjavík til þeirra sem þurfa á rampnum að halda.“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.

Bílastæðin voru einnig breikkuð og allt aðgengi að og inn í verslunum rampað upp. Auk orkugjafa fyrir bílinn þá eru Lyfjaval með lúguapótek og Sbarro með verslun og þjónustu í Suðurfelli Breiðholti. Settir voru upp sjálfvirkir hurðaopnar, aðgengilegt salerni og borð í réttri hæð fyrir hreyfihamlaða. Orkan og Römpum upp Ísland eru einnig búin að rampa upp verslun við Orkustöð á Stokkseyri og liggur fyrir að halda samstarfinu áfram með því að rampa upp fleiri verslanir við Orkustöðvar.

Orkan býður því nú lægsta verðið í Reykjavík á tveimur stöðvum, Suðurfelli og Bústaðavegi. Auk þeirra býður Orkan lægsta verðið að Dalvegi í Kópavogi, Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði og á Mýrarvegi á Akureyri.

,,Það eru gleðifréttir að lágt bensínverð sé nú aðgengilegt öllum. Orkan er algjörlega til fyrirmyndar og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu” segir Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra.

Orkan tekur þátt í orkuskiptunum og verður fyrsta Orku hraðhleðslustöðin opnuð í júní nk. Hugað verður að aðgengi fyrir hreyfihamlaða við allar hraðhleðslustöðvar Orkunnar.