03.11.2023

2,2 milljónir króna til Bleiku slaufunnar frá bleikum Orkuboltum

Orkan og viðskiptavinir Orkunnar söfnuðu 2,2 milljónum króna handa Bleiku slaufunni árið 2023.

Saman söfnuðum við, Orkan og viðskiptavinir okkar 2,2 milljónum króna handa Bleiku slaufunni sem er átak Krabbameinsfélagsins gegn krabbameinum hjá konum. Nýlega var fyrirkomulagi söfnunarinnar breytt á þann hátt að nú gefa viðskiptavinir með skráðan Orkulykil í styrktarhópi Bleiku slaufunnar 1 krónu af sínum afslætti allan ársins hring og tvær krónur í október. Við jöfnum síðan upphæðina sem viðskiptavinir safna. Auk þess gefum við 5 krónur af öllum seldum lítrum á bleika daginn sem var 20.október í ár.

„Það er ánægjulegt að sjá fjöldan allan af viðskiptavinum Orkunnar sem þykir vænt um málefnið eins og okkur. Á bleika deginum birtum við upphæðir frá viðskiptavinum til að sýna fram á að margt smátt gerir eitt stórt og við erum þakklát fyrir hversu vel söfnunin gekk og þá samstöðu sem viðskiptavinir okkar sýna þessu göfuga málefni“ segir Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar.

„Krabbameinsfélagið leggur sitt af mörkum með öflugu forvarnar- og fræðslustarfi, þýðingarmiklu framlagi til krabbameinsrannsókna, hagsmunagæslu og endurgjaldslausum stuðningi og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Fjárhagslegur stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við Bleiku slaufuna er því ómetanlegt framlag í baráttunni við krabbamein og undirstaða þess að félagið geti áfram sinnt þessum mikilvægu verkefnum. Krabbameinsfélagið þakkar Orkunni fyrir sinn mikilvæga stuðning í gegnum árin til félagsins af alhug“ segir Árni Reynir Alfredsson forstöðumaður fjáröflunar og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Við gerum viðskiptavinum kleift að styðja Krabbameinsfélagið allan ársins hring með Orkulyklinum og er hægt að kynna sér málefnið nánar á https://www.orkan.is/bleikur-oktober/

Á mynd eru (frá vinstri)
Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu. 
Halla Þorvalsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar
Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstjóri Orkunnar